top of page
Kristínartindar_á toppnum.jpg

LÓMAGNÚPUR OG
KRISTÍNARTINDAR

69.000- kr.

Lengd ferðar: 4 dagar / 3 nætur.
Erfiðleikastig 3 af 4 skór (sjá hér​)

DAGSETNING: 

28. júní - 1. júlí, 2024.
 

INNIFALIÐ:

Gisting í Lækjaborgum  (smáhýsi), fararstjórn, morgun- og kvöldmatur frá Krúsku og jóga. 

Ekki innifalið er nesti yfir daginn.

DAGUR 1 / 28. júní.
Þátttakendur mæta sjálfir á gististað. Góð hugmynd er að sameinast i bíla til að vernda umhverfið.
Á fyrsta degi, 30. júní, hittumst við á gististaðnum Lækjaborgum, nálægt Kirkjubæjarklaustri. Þar komum við okkur fyrir, fáum okkur að borða, kynnumst og höfum það notalegt.


DAGUR 2 og 3 / 29. júní og 30. júní.

Dag tvö og þrjú förum við annars vegar á Lómagnúp og hins vegar Kristínartinda. Hvora leiðina við veljum hvorn dag fyrir sig fer eftir veðri og aðstæðum.

 

Lómagnúpur er eitt fallegasta og tignarlegasta fjall landsins þar sem það gnæfir yfir umhverfinu við Þjóðveg 1. Fjallið er svo sannarlega sýnd veiði en ekki gefin. Dagurinn verður langur, smá krefjandi en mjög gefandi og „breathtaking“. 

 

Við keyrum inn með austanverðu fjallinu þar til við komum að litlum lundi þar sem við munum leggja bílunum. Við höldum áfram, gangandi, meðfram austurhlíðinni, norður fyrir fjallið og inn Hvirfildal. Við göngum inn dalinn og förum upp á fjallið þar, eftir gras/mosabreiðu innst í dalnum. Klifrið er nokkuð bratt og þar fyrir ofan tekur við gróft undirlag, þ.e. stórt grjót. Þegar upp er komið erum við enn á grófu undirlagi sem breytist eftir því sem sunnar dregur og verður þægilegra. Uppi á fjallinu sjálfu erum við í nokkuð flötu landslagi, alveg út á enda.

 

Útsýnið á syðsta enda Lómagnúps er ólýsanlegt. Við sjáum vítt og breitt til allra átta, sjáum Vatnajökul til austurs og Mýrdalsjökul og Eyjafjallajökul til vesturs. Á leiðinni út á enda fjallsins er að sjálfsögðu einnig gullfallegt útsýni.

 

Við stefnum að því að fara austan megin eftir fjallinu á leiðinni út á enda og örlítið meira vestan megin á leiðinni til baka. Hlíðar Lómagnúps eru brattar og því þarf að fara að öllu með gát.

 

Við göngum sem sagt sömu leið fram og til baka, um 22 km leið. Hæsti tindur er um 790 m hár og gangan mun taka 8-10 klst.

 

Kristínartindar eru upp af Skaftafelli. Sú leið er um 18 km hringleið. Við munum byrja frá Þjónustumiðstöðinni í Skaftafelli og fara upp austan megin, upp Austurbrekkur, upp á Austurheiði og að Sjónarnípu. Við höldum áfram upp á við og förum eftir stíg sem liggur norðan við Skaftafellsheiði og Flár. Þar komum við upp í skarð sem er í um 700 m hæð. Þar er hægt að stoppa, hvíla og bíða eftir þeim sem kjósa að fara alla leiðina upp á Kristínartinda. Sú leið er brött og krefjandi, sérstaklega á leiðinni niður. Hún er ekki löng og útsýnið uppi er stórkostlegt. Vatnajökull í vestri, norðri og austri og Skeiðarársandur og Skaftafell í suðri. Gullfallegt! 
 

Á leiðinni niður förum við niður skarð sem liggur niður í Gemludal. Við enda skarðsins förum við í vesturátt og förum vestanmegin niður, að Sjónarskeri. Þar getum við valið um að fara og skoða Svartafoss og ganga niður hina hefðbundnu leið niður að Þjónustumiðstöðinni eða að fara niður og skoða gömlu húsin að Seli. Hvor leiðin sem verður valin þá verðum við ekki svikin.
 

Keyrt verður til baka til gististaðarins okkar bæði kvöldin þar sem boðið verður upp á gómsætan mat frá Krúsku.

Leiðin er um 18 km löng, hæsti tindur um 1100 m hár og gangan tekur 6-8 klst.

 

DAGUR 4 / 1. júlí.

Fjórða daginn göngum við frá og leggjum af stað heim. Ef veður og aðstæður eru hagstæð þá munum við stoppa við og skoða Hjörleifshöfða.

 

Gistining okkar, Lækjaborgir.

Fararstjórn

Gróa Másdóttir og Helga Bára

bottom of page